Fyrstu 5 skyrturnar

Við útbúum skyrtur á hverjum einasta degi, og erum með fullt af skoðunum um hvaða skyrtur virka best við hvaða tilefni. En það er skiljanlegt að það séu ekki allir með sterka skoðun á því nákvæmlega hvaða blái litur (af 50 næstum því alveg eins) sé bestur eða hvaða hvíta skyrta sé nógu fín til að nota við jakkaföt en ekki svo fín að hún gangi ekki við gallabuxur. Við settum saman lista af fyrstu fimm skyrtunum sem við myndum velja í okkar eigin skápa til að hjálpa þér að velja.

Margir velja skyrturnar sínar aðallega út frá lit, og þá sérstaklega út frá því að eiga eins fjölbreytta liti og völ er á. Þótt litur ráði miklu um útlit skyrtunnar er áferð efnisins og form kragans alveg jafn mikilvægt. Frekar en að einblína á lit hvetjum við menn til að spyrja sig að einu: „Við hvaða tilefni sé ég fyrir mig að nota þessa skyrtu?“

Skyrta #1

Hvít skyrta trónir á toppnum í stigveldi spariskyrtanna. Enginn annar litur er jafn hreinn og jafn glæsilegur undir dökkum jakkafötum og með fallegu silki bindi. Hvíta skyrtan okkar úr „oxford“ bómullarefni er með nógu mikla áferð og nógu einföld til að virka jafn vel við gallabuxur og jakkaföt en fyrir þá sem vilja það sparilegasta sem er í boði eru „twill“ skyrturnar góður kostur.
Hvít skyrta

Skyrta #2

Ljósblá skyrta er ekki alveg jafn formleg, en aftur á móti aðeins aðgengilegri valkostur í spariskyrtum. Aðeins afslappaðri og hlýrri litur gerir það að verkum að auðveldara er að nota svona skyrtu við óformlegri tilefni. Gleiður kragi stendur betur þegar efsta talan er fráhneppt og veitir aðeins nútímalegra útlit.

Ljósblá skyrta

Skyrta #3

„OCBD“ skyrtan er sígild af ástæðu. Djass goðsagnir, bandarískir háskólanemendur og franskar kvikmyndastjörnur hafa öll tekið þessari afslöppuðu skyrtu fagnandi, enda verður hún bara betri með aldrinum.

OCBD skyrta

Skyrta #4

Þegar þú ert kominn með nokkra heila liti í skápinn er kominn tími til að fara að bæta einhverjum einföldum mynstrum inn í jöfnuna. Við erum hrifnir af klassískum og fáguðum mynstrum og þótt bláir tónar séu alltaf vinsælir hvetjum við menn til að skoða jarðtónana líka – grænir og brúnir litir fara flestum vel.

Mynstraðar skyrtur eru sígildar.

Skyrta #5
Síðasta skyrtan er reyndar svindl að því leyti að hún er ekki raunverulega skyrta heldur langermapólóbolur, en með flottum fóðruðum kraga sem klæðir bolinn upp og gerir það að verkum að þessi bolur fer alveg jafn vel með stökum jakka og gallabuxum. Efnið er 100% bómull en ofið með sérstakri aðferð þannig að það er teygjanlegra en annað skyrtuefni. Fullkomna skyrtan fyrir helgi þegar þú vilt geta leikið þér með krökkunum um miðjan dag og farið út að borða um kvöldið án þess að skipta um föt.

Langermapólóbolur með flottum kraga virkar vel undir jakka.

Við vonum að þessi listi hjálpi aðeins, en ekki hika við að heyra í okkur á Facebook eða kíkja í kaffi til okkar ef þú vilt fá aðstoð með að velja þína næstu skyrtu.

 

 

← Eldri færsla Nýrri færsla →