Efnin okkar

Frá stofnun Suitup Reykjavik höfum við lagt gríðarlega mikla áherslu á að bjóða upp á bestu fáanlegu efni. Þau kaupum við að stærstu leyti frá Biella svæðinu á N-Ítalíu sem er miðpunktur efnaframleiðslu í landinu. Auk þess verslum við efni frá nokkrum sögufrægum myllum í Englandi. Í verslun okkar að Bolholti 4 getur þú skoðað um 15.000 efni frá öllum virtustu efnamyllum Ítalíu og Englands.

Loro Piana

Loro Piana er eine allra besti og virtasti efnaframleiðandi veraldar. Textílviðskipti Loro Piana fjölskyldunnar hófust snemma á 19. öldinni og í framhaldinu opnaði hún sína eigin verksmiðju í þorpinu Quarona, í rótum alpanna. Í dag eru Loro Piana fremstir meðal jafningja í framleiðslu á lúxusefnum og eru árstíðabundnu efnin okkar alltaf með mikið úrval af efnum frá þeim. Þess utan bjóðum við upp á yfir 2.000 efni frá þeim í sérpöntun.

VBC

Vitale Barberis Canonico, eða VBC eins og hún er oft kölluð, er elsta starfandi ullarmylla veraldar. VBC hófu starfsemi árið 1663 og 15 kynslóðum síðar er reksturinn ennþá í höndum sömu fjölskyldunnar og fer Francisco Vitale Barberis þar fremstur í flokki. Allt árið í kring eigum við gott úrval af Perennial, Revenge og Original Flannel efnunum þeirra en einnig innihalda árstíðabundnu efnin okkar alltaf efni frá þeim. 

Ferla

Ein af mest spennandi myllunum í Biella er Ferla sem staðsett er í þorpinu Valdilana. Þeir sérhæfa sig í vinnslu á óhefðbundnum þráðum og þá sérstaklega baby alpaca. Vetrarlínurnar okkar innihalda jafnan úrval af jakka- og jakkafataefnum úr slíkum efnum en sumarefnin frá Ferla einkennast af áferðamiklum hör- og silkiblöndum.

Drago

Ein af nýlegri ullarmyllum Biella er fjölskyldufyrirtækið Drago. Frá stofnun fyrirtækisins árið 1973 hafa þeir fljótt skapað sér nafn sem ein allra besta og framsæknasta mylla Ítalíu. Árstíðabundnu efnin okkar innihalda alltaf úrval af Super 130s efnunum frá Drago auk ullar- og kasmírblöndunnar sem við mælum sérstaklega með.

Angelico

Síðan á 6. áratug 20. aldar hefur Angelico framleitt vönduð ullarefni í bænum Ronco Biellese. Doppio Ritorto Super 130s efnin sem eru ávallt til á lager hjá okkur koma frá Angelico og hafa verið með vinsælustu efnunum okkar síðustu ár. Þar að auki má finna jakka- og jakkafataefni frá Angelico í árstíðabundnu efnunum okkar. 

Guabello

Ein af þeim myllum sem við höfum starfað hvað lengst með er Guabello. Fyrirtækið fagnaði 200 ára afmæli sínu árið 2015 og eru þekktir fyrir klassísk og vönduð ullarefni. Þú finnur efni frá Guabello í klassísku línunni okkar af tilbúnum jakkafötum.

Zignone

Maðurinn á bakvið Zignone er Gilio Zignone en hann hóf framleiðslu á efnum árið 1968 en áður hafði hann starfað í textílbransanum í áraraðir. Reksturinn er enn í dag í höndum fjölskyldu hans og héldu nýlega upp á 50 ára starfsafmæli. Efnin frá Zignone finnur þú bæði í sérsaumi sem og tilbúnum jakkafötum hjá okkur. 

Holland & Sherry

Það sem aðskilur Holland & Sherry frá hinum framleiðendunum hér er sú staðreynd að þeir eru frá Englandi en ekki Ítalíu. Fyrirtækið var stofnað í London árið 1836 og hafa síðan þá verið ein mikilvægasta ullarmylla Englands og hafa fjölmargir meðlimir konungsfjölskyldunnar skartað jakkafötum úr efnum frá myllu þeirra í Yorkshire. Við bjóðum upp á gríðarlega stórt úrval af efnum frá þeim fyrir sérpöntun. 

Caccioppoli

Tæknilega séð er Caccioppoli Napoli ekki efnaframleiðandi heldur láta þeir framleiða fyrir sig efni undir eigin nafni, en það er alls ekki óalgengt í þessum bransa. Efnin eru innblásinn af S-Ítölskum klæðskerastíl og hafa verið einstaklega vinsæl hjá viðskiptavinum okkar. Jakkaefnin þeirra úr ull og kasmír eru algjörlega frábær, sem og flauelið þeirra. Fáanlegt í sérpöntun.

Fratelli Tallia di Delfino

Síðast en alls ekki síst eru það Delfino sem hafa starfað í smábænum Strona frá árinu 1903. Þeir eru hluti af Marzotto samsteypunni sem á meðal annars Guabello en sérsvið Delfino er lúxusefni. Þar má meðal annars nefna 100% kasmír og ull upp í Super 200s. Í sérsaumi eru Delfino efnin í boði sem sérpöntun en sumarlínan okkar af tilbúnum jakkafötum mun einnig innihalda jakkaföt og buxur úr efnunum þeirra.