Hvað er „full-canvas“ jakki?

Heildarútlit jakkafata ráðast að miklu leyti af tvennu; efninu og saumaskapnum. Auk þess að bjóða upp á úrval af efnum frá virtustu myllum í heimi bjóðum við úrval af vönduðum saumaðferðum. Einn stærsti þátturinn í gerð jakka er hvernig jakkinn er „byggður“ (e. constructed).

 

Hingað til höfum við boðið upp á tvo möguleika í þeim efnum. „Unconstructed“ jakki er eins léttur og hægt er og ekki með neina púða í öxlunum. Jakkinn hefur mýkra útlit fyrir vikið og þessi stíll á rætur sínar að rekja til klæðskerahefð Ítalíu, þar sem áhersla er lögð á þægindi og að hafa jakkann léttan. Fyrir hefðbundnara útlit höfum við boðið upp á það sem kallast „half-canvas“ byggingu en þá er strigi úr náttúrulegum efnum saumaður með hrosshárum inn í boðungana og yfir brjóstkassan. Fyrir vikið rúlla boðungarnir fallega og striginn bregst við líkamshita og hreyfingu til að aðlagast líkama eigandans og verða jafnvel fallegri með notkun. Í ódýrari jökkum er efnið oftast límt saman. Þetta hefur ýmsa ókosti í för með sér, helst þá að fötin verða ekki jafn falleg og duga ekki jafn vel. Sú aðferð hefur því aldrei höfðað til okkar, þar sem við leggjum metnað í að hafa gæði fatanna eins mikil og völ er á.

 

Með það fyrir augum erum við ánægðir að kynna nýjan valkost varðandi jakkabyggingu. Héðan í frá munu kúnnar geta valið um að hafa jakkana sína saumaða með "full-canvas" aðferð þar sem striginn nær alla leið niður að faldinum á jakkanum. Sú aðferð er notuð af fremstu jakkafataframleiðendum og klæðskerum heims. Þægindin eru töluverð og endingin með bestu móti.

 

← Eldri færsla Nýrri færsla →