Gallabuxur

Eftir langan og strangan undirbúning getum við loks boðið viðskiptavinum okkar upp á sérsaumaðar gallabuxur. Gallabuxurnar okkar eru handgerðar í lítilli fjölskyldurekinni verksmiðju í norðurhluta Ítalíu. Rétt eins og með jakkafötin frá Suitup Reykjavik felst grunnurinn að vönduðum gallabuxum í efninu sem þær eru saumaðar úr. Fyrir fyrstu línuna af buxunum höfum við handvalið sjö efni frá virtustu efnamyllum Ítalíu og Japan. Hér að neðan getur þú skoðað þessi efni og lesið þig til um efnamyllurnar okkar.

DEN001 - 100% bómull - 13 oz.
DEN002 - 100% bómull - 13 oz.
DEN003 - 92% bómull/6% EME/2% EA - 12 oz.
DEN004 - 92% bómull/6% EME/2% EA - 12 oz.
DEN005 - 80% bómull/20% EME - 11 oz.
DEN006 - 98% bómull/2% EA - 11 oz.
DEN008 - 100% bómull - 14 oz.

Árið 1938, í smábæ rétt utan við Mílanó, stofnaði Luigi Candiani litla efnamyllu sem sérhæfði sig í framleiðslu efnis í vinnufatnað. Sonur hans, Primo, tók síðan við og hóf framleiðslu á gallaefnum. Í framhaldinu tók elsti sonur hans, Gianluigi, við rekstrinum og þróaði framleiðsluna enn frekar. Í dag er Candiani, undir stjórn Alberto Candiani, fremsta mylla Ítalíu þegar kemur að gallaefnum og halda enn í fornar hefðir þar sem þessi vönduðu efni eru vofin á sama hátt og fyrir 50 árum.

Árið 1887 í bænum Bovolenta stofnuðu bræðurnir Giuseppe og Edidio Berto fyrirtækið Berto Textile Industry. Bærinn er ekki langt frá Feneyjum og upprunalega framleiddu þeir segl fyrir báta borgarinnar. Í framhaldinu hófu þeir að framleiða m.a. borðklúta, efni í vinnufatnað og að lokum gallaefni.
Í dag framleiðir fyrirtækið selvedge gallefni undir nafninu Blue Selvedge. Þessi efni, sem eru ofin á Picanol vefstóla frá 6. áratugnum, eru algjörlega einstök og verða að heimsklassa gallabuxum í höndum klæðskera okkar.

Japan framleiðir innan við 1% af gallaefnum veraldar en framleiðslan er jafnframt ein sú virtasta og eftirsóknarverðasta. Kuroki myllan var stofnuð árið 1950 af Tamotsu Kuroki, sem er enn í dag forstjóri fyrirtækisins. Þeir hafa sérhæft sig í gallaefnum sem eru indigo lituð, þ.e. lituð með lit sem er unninn úr plöntunni Indigofera tinctoria og finnst víða í Asíu. Til að fullkomna samspil litarefnisins og bómullarinnar notast Kuroki við vatn frá bænum Ibara í nágrenni við Okayama en vatnið telja þeir gefa bómullinni hinn fullkomna bláa lit.